ÁRSSKÝRSLA STJÖRNUNNAR 2022
AÐALFUNDUR UMF STJÖRNUNNAR 3. MAÍ 2023
STARFSÁR 2022
ÁVARP FORMANNS
SKÝRSLA AÐALSTJÓRNAR
Aðalfundur félagsins árið 2022 var haldinn þann 25. apríl. Við það tilefni var kosið um þrjú sæti í aðalstjórn, þar af formann. Undirritaður var kosinn nýr formaður og tók við af Sigurgeiri Guðlaugssyni. Ingvar Ragnarsson var endurkjörinn í stjórn og Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir kom ný inn í aðalstjórn fyrir Brynju Baldursdóttur.
Á sama tíma ákvað Ása Inga Þorsteinsdóttir að hætta sem framkvæmdastjóri Stjörnunnar og var Baldvin Sturluson ráðinn framkvæmdastjóri í hennar stað. Ásu, Sigurgeiri og Brynju eru þökkuð góð störf fyrir félagið.
Á starfsárinu 2022 tóku tæplega 4.500 virkir iðkendur og yfir 400 þjálfarar og aðrir starfsmenn þátt í starfsemi félagsins, að ógleymdum þeim mikla fjölda sjálfboðaliða sem situr í stjórnum deilda, ráðum og nefndum, eða kemur að starfinu á annan hátt. Hjá félaginu eru sem fyrr starfandi sjö deildir: fimleika-, handknattleiks-, knattspyrnu-, körfuknattleiks-, lyftinga-, sund- og almenningsíþróttadeild. Rekstrarniðurstaða ársins 2022 er neikvæð en lausafjárstaða félagsins í árslok er sterk. Mjög mismunandi er á milli deilda hvernig reksturinn kemur út. Þannig er ljóst að ekki verður komist hjá talsverðum niðurskurði hjá handknattleiksdeild félagsins, þar sem tekjur deildarinnar hafa ekki vaxið í takti við aukinn kostnað.
Þá veldur það verulegum áhyggjum að fyrirtæki í landinu eru frekar að draga í land með styrki til íþróttafélaga frekar en að bæta í. Það má segja að styrkir hafi staðið í stað síðastliðin fimm ár en ekki fylgt launaþróun í landinu sem hefur vaxið umtalsvert á þessum tíma. Að mörgu leyti er sama staðan hvað varðar sveitarfélagið og styrki þess til afreksstarfsins. Þannig tel ég ljóst að fram undan séu krefjandi ár í rekstri íþróttafélaga og óvíst er hvort öll muni geta staðið við skuldbindingar sínar. Mikið er rætt um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og væri nú gaman ef þau sýndu þessa ábyrgð með því að auka verulega styrki inn í íþróttafélögin í landinu sem eru langstærstu samtök sem starfa að almannaheill.
Stjarnan náði frábærum árangri á ýmsum vígstöðvum á árinu og má þar t.a.m. nefna Íslands- og bikarmeistaratitla karla- og kvennaliða félagsins í hópfimleikum og bikarsigur meistaraflokks karla í körfuknattleik. Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu náði 2. sæti á Íslandsmótinu og tryggði sér þannig þátttökurétt í Evrópukeppninni árið 2023. Þá eru ótaldir allir þeir fjölmörgu titlar sem yngri flokkar félagsins söfnuðu að sér á árinu og ljóst að framtíðin í Garðabænum hefur sjaldan verið jafnt björt og einmitt nú. Stjarnan er virkilega stolt af okkar frábæra íþróttafólki og er ómetanlegt að hafa jafn sterkar og jákvæðar fyrirmyndir innan okkar raða. Góð aðsókn var á sumarnámskeið félagsins á síðastliðnu sumri og var einstaklega vel tekið í ný námskeið sem boðið var upp á fyrir eldri iðkendur.
Á árinu var nýtt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri, Miðgarður, tekið í notkun og ljóst er að tilkoma þess verður mikil lyftistöng fyrir félagið, ekki síst knattspyrnudeild og allt íþróttalíf í Garðabæ. Bindum við í Stjörnunni miklar vonir við að geta aukið enn frekar þjónustuframboð félagsins með tilkomu þessa glæsta mannvirkis og horfum til þess að taka við rekstri þess.
Aðalstjórn hóf stefnumótun á árinu og ákvað að fara dýpra í þá vinnu en upphaflega var áætlað af fyrri stjórn og voru þau Þórður Sverrisson og Ása Katrín Hólm frá Stragem fengin til ráðgjafar. Stefnt er að kynna nýja stefnumótun á aðalfundi þessum. Ljóst er að fjölmörg verkefni koma út úr þeirri vinnu sem farið hefur verið í og nauðsynlegt að fjölga enn frekar sjálfboðaliðum til þess að aðstoða okkur við að hrinda nýrri stefnu í framkvæmd. Þá hefur félagið endurnýjað vottun félagsins sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Stjarnan er ákaflega stolt af því mikilvæga hlutverki sem félagið gegnir í samfélaginu okkar í Garðabæ. Félagið er meðal stærstu þjónustuaðila í bæjarfélaginu og er hlutverk þess þríþætt:
• Barna- og unglingastarf
• Afreksstarf
• Almenningsíþróttir fyrir fullorðna
Í barna- og unglingastarfinu er hugsjónin fyrst og fremst að skila út í samfélagið sterkum einstaklingum sem læra í gegnum íþróttirnar að takast á við gleði og sorgir, sigra og töp, meðbyr og mótlæti. Einstaklingum sem þora að gera mistök, læra af þeim og hafa hugrekki til að elta drauma sína og feta ótroðnar slóðir. Ekki má heldur gleyma því mikla forvarnargildi sem þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur. Slík þátttaka, ásamt samvistum við forráðamenn og fjölskyldu, eru tveir stórir þættir sem hafa áhrif til góðs þegar litið er til áhættuhegðunar barna og ungmenna. Afar mikilvægt er að halda ótrauð áfram á braut forvarna og hlúa enn betur að því starfi sem unnið er á þessu sviði. Sérstaklega þarf að koma í veg fyrir brottfall á unglingsaldri og það hlýtur að koma til skoðunar að reka á þeim aldri bæði afrekslínu og almenningslínu, mögulega með færri æfingum í viku hverri og ekki með sömu áherslu á keppni.
Í afreksstarfi er Stjarnan í fremstu röð. Auk þeirrar sigurhefðar, skemmtanagildis, samstöðu og félagslegrar samveru sem afreksstarfið elur af sér er eitt af stóru hlutverkum afreksstarfsins að skapa fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur. Eins og áður hefur komið fram er ómetanlegt að eiga sterkar fyrirmyndir. Óhætt er að fullyrða að í Stjörnunni eigum við fjöldann allan af slíkum sem við öll, börn og fullorðnir, getum stolt litið upp til. Samstaðan sem myndast í kringum afreksfólkið okkar á stóran þátt í að þjappa okkur saman og við finnum fyrir því að tilheyra stærri heild.
Skíni Stjarnan!
F.h. aðalstjórnar Stjörnunnar,
Sigurður Guðmundsson,
formaður UMF Stjörnunnar
STARFSEMI UMF STJÖRNUNNAR
Fjöldi virkra iðkenda í barna- og unglingastarfi félagsins starfsárið 2022 til vors 2023 er samtals 3.755. Líkt og kom fram í skýrslu aðalstjórnar hér að framan eru þó virkir iðkendur í starfi félagsins í kringum 4.500.
Góður vöxtur hefur verið í flestum deildum samhliða örum vexti sveitarfélagsins. Knattspyrnudeild félagsins er stærsta deild félagsins en fimleikadeildin fylgir þar fast á eftir. Hér til hliðar er mynd sem sýnir hlutfallslega skiptingu iðkenda á milli deilda félagsins.
FJÖLDI IÐKENDA
Sumarstarfsemi félagsins er ávallt blómleg en félagið býður upp á sérstök námskeið yfir sumarið sem ekki falla undir hefðbundnar æfingar flokka félagsins. Aukning hefur verið á sumarnámskeiðum fyrir eldri iðkendur og fjölbreytileikinn alltaf að verða meiri fyrir alla hópa en á sumrin gefst oft tími til að bjóða upp á sérhæfðari námskeið sem ekki komast að yfir vetrarmánuðina.
Alls tóku um 1.540 krakkar þátt í þeim námskeiðum sem voru í boði. Hér fyrir neðan/til hliðar er hægt að skoða skiptingu þeirra eftir deildum frekar.
SUMARNÁMSKEIÐ
ÞJÁLFARI ÁRSINS 2022
KRISTJÁN GUÐMUNDSSON
Kristján Guðmundsson tók við liði Stjörnunnar í október 2018. Kristján býr yfir mikilli reynslu í þjálfun og undir hans stjórn hefur liðið tekið miklum framförum. Liðið hefur bætt árangur sinn á hverju ári og árið 2022 náði liðið að tryggja sér 2. Sæti í Bestu deildinni sem gaf þeim rétt til þátttöku í Evrópukeppni félagsliða árið 2023.
LÖG UMF STJÖRNUNNAR
8. gr.
Aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar fer með stjórn félagsins samkvæmt ákvæðum samþykkta þessara. Aðalstjórn skal skipuð 5 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, og tveimur meðstjórnanda, ásamt 2 varamönnum. Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi félagsins og skal formaður kosinn sérstaklega.
9. gr.
Aðalstjórn ber að samræma starfsemi félagsins, vinna að eflingu þess og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Aðalstjórn er málsvari félagsins út á við og skýrir sjónarmið þess á þeim vettvangi. Aðalstjórn ákveður félagsgjöld í upphafi starfstímabils og heldur skrá yfir alla félagsmenn. Aðalstjórn skal skipa trúnaðarmenn félagsins og þær nefndir sem hún telur nauðsynlegar hverju sinni. Aðalstjórn er heimilt að víkja mönnum úr félaginu eða setja þá í keppnisbann álíti hún framkomu þeirra vítaverða og brjóta í bága við anda íþróttahreyfingarinnar. Sjóði félagsins skal ávaxta í viðurkenndum innlánsstofnunum. Aðalstjórn skal halda stjórnarfundi minnst einu sinni í mánuði og skal halda um þá sérstaka gerðarbók. Enga fullnaðarákvörðun getur aðalstjórn tekið nema með samþykki meirihluta stjórnarmanna. Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og ræður starfsemi þess.
10. gr.
Aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn félagsins til þess að annast framkvæmd ákvarðana aðalstjórnar, framkvæmd ákvarðana stjórna einstakra deilda og verkefni félagsins. Framkvæmdastjóri félagsins skal sitja fundi aðalstjórnar, og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt, en eigi atkvæðisrétt. Framkvæmdastjóri undirbýr fundi aðalstjórnar og hefur á hendi framkvæmd þeirra ákvarðana, sem aðalstjórn tekur. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi U.M.F. Stjörnunnar. Honum er heimilt að veita öðrum starfsmanni félagsins prókúru að fengnu samþykki aðalstjórnar. Prókúruhafar félagsins skulu vera fjár sín ráðandi. Framkvæmdastjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu eigna félagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl og samninga, sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir, sem samþykki
aðalstjórnar eða stjórna einstakra deilda félagsins þarf til.
11. gr.
Aðalstjórn skal ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári halda fundi með formönnum deilda eða staðgenglum þeirra. Slíkir fundir kallast félagsráðsfundir og þar skulu helstu ákvarðanir aðalstjórnar kynntar og stefnumarkandi ákvarðanir ræddar.
Samþykkt á aðalfundi í apríl 2022.
1. gr.
Félagið heitir Ungmennafélagið Stjarnan, skammstafað U.M.F. Stjarnan.
2. gr.
Starfssvæði U.M.F. Stjörnunnar er Garðabær.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að efla líkams og heilsurækt í formi keppnis- og almenningsíþrótta hjá öllum aldurshópum í Garðabæ. Ennfremur að efla samkennd bæjarbúa með virkri þátttöku í íþrótta- og félagsstarfi.
4. gr.
Félagið er myndað af einstaklingum í íþróttadeildum, sem hafa sameiginlega aðalstjórn. Aðalstjórn skipar deildarstjórnir og fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.
5. gr.
Félagi getur hver sá orðið, sem skráður er í félagið og greiðir félags- eða æfingagjald til þess.
6. gr.
Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt aðalstjórn.
7. gr.
Semja skal ársreikning fyrir aðalstjórn U.M.F. Stjörnunnar og einstakar deildir félagsins. Hver deild skal annars vegar gera upp rekstur barna- og unglingastarfs og hins vegar rekstur keppnisíþrótta fyrir 18 ára og eldri. Jafnframt skal semja samstæðureikning fyrir UMF. Stjörnuna. Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju. Hann skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar og í honum skal koma fram yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar félagsins. Ráðinn skal löggiltur endurskoðandi til þess að yfirfara og árita ársreikninginn í samræmi við lög og reglur og góðar skoðunarvenjur. Með endurskoðun sinni skal hann komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreiknings og ganga úr skugga um að fylgt hafi verð ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS 2022
ÁSTA KRISTINSDÓTTIR
Ásta Kristinsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari í hópfimleikum með kvennaliði Stjörnunnar. Ásta er einn af lykilmönnum liðsins; er í öllum sex stökkumferðunum og með hæsta erfiðleika í öllum stökkum. Einnig sýndi hún glæsilega frammistöðu á dansgólfinu. Ásta var einnig lykilmanneskja í kvennalandsliðinu á Evrópumótinu í hópfimleikum í september 2022. Hún var ein af sex konum sem valdar voru í úrvalslið mótsins (e. All Star) fyrir frammistöðu sína á dýnu á mótinu.
Núna í desember keppti Ásta á alþjóðlegu móti sem nefnist ,,Face off“ þar sem keppt er í mismunandi þrautum og er markmiðið að lenda stökk með hæstan erfiðleika með ákveðinni uppsetningu. Í ár var í fyrsta sinn keppt í kvennaflokki og varð Ásta fyrst kvenna til að vinna þann flokk. Hún er fyrirmyndarafrekskona í fimleikum og sýnir mikinn metnað til að ná árangri í íþróttinni. Ásta var á dögunum útnefnd í 2.—3. sæti sem fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.
SKÝRSLA ALMENNINGSDEILDAR
LÍKAMSRÆKT BIRNU OG ÓLA
Líkamsrækt B & Ó hefur starfað í tæp 34 ár undir merkjum Almenningsdeildar Stjörnunnar. Frá byrjun hafa verið starfræktir bæði kvenna og karlatímar. Fjöldi iðkenda hefur verið svipaður síðustu 23 árin, 55 konur og 55 karlar með fastan 45 - 50 manna kjarna í hvorum hópi. Síðastliðið ár hefur fjöldinn verið dálítið rokkandi eins og undanfarin ár, nýir þátttakendur komið inn og aðrir hætt. Þó hefur fasti kjarninn haldið sér að mestu. Tímarnir í Ásgarði voru með sama sniði og undanfarin ár eða 50 mínútur tvisvar í viku hjá körlunum, þ.e. kl. 17:50 og annar hópur kl. 18:40 á mánudögum og miðvikudögum. Hjá konunum er einn hópur kl. 8:00 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en hinn hópurinn er kl. 17:00 á mánudögum og miðvikudögum. Við segjum alltaf að þessi líkamsrækt sé 50 % líkamsrækt og hin 50 % séu félagsleg. Það skýrist af því að félagslegi þátturinn er líka mikið ræktaður, t.d. er ganga á hverjum laugardegi um Garðabæ. Tvisvar í mánuði er svo farið í lengri skipulagðar göngur með leiðsögn á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Þá er jafnvel farið á kaffihús í lokin eða boðið upp á kakó, kex, kleinur og kristal.
Í byrjun síðasta árs ´22 voru enn fjöldatakmarkanir vegna Covid, en í febrúa var öllum takmörkunum aflétt. Vorönnin stóð yfir frá 11/1 – 27/4 og haustönnin 9/9 – 21/12. Gönguferðirnar , þ.e. þær lengri duttu fljótlega inn við mikinn fögnuð þátttakenda, eins og önnur venjuleg dagskrá. Þorrablótinu var frestað en karlarnir héldu smá herrakvöld úti í Stjörnuheimili í byrjun mars með góðri þátttöku. Í lok apríl fórum við loksins í vorferð eftir tveggja ára hlé og að þessu sinni fengu makarnir að koma með! Fóru um 70 manns í ferðina og byrjuðum við á að heimsækja Hellisheiðavirkjun og fengum leiðsögn um starfsemina. Eftir heimsóknina var farið í Skíðaskálann í Hveravöllum þar sem var borðað og skemmtum við okkur að hætti hússins fram eftir kvöldi.
Á haustönninni var Jeppaferð á dagskrá helgina 5. – 6. nóvember með um 20 manns, en var felld niður vegna veðurs. Miðvikudaginn 9. nóvember sameinuðust báðir hóparnir úti í Stjörnuheimilinu og héldum okkar haustfagnað um 70 manns. Miðbæjargangan var farin laugardaginn 26. nóvember, gengið var frá Hallgrímskirkju og gengið um miðbæinn og komið við í Hörpu og einnig var komið við hjá Reykjavík Apartments. 11. desember var okkar árlega helgistund í Maríuhellum með séra Magnúsi B. Björnssyni, eftir góða göngu í Heiðmörkinni.
Með kærri líkamsræktarkveðju, Birna og Óli
Stjórn Almenningsdeildar vill sérstaklega þakka þeim Birnu og Óla kærlega fyrir framlag þeirra til almenningsíþrótta og eflingar lýðheilsu í Garðabæ. Einnig viljum við þakka iðkendum og öllum sem komið hafa að starfi deildarinnar fyrir þeirra þátt.
Fyrir hönd Almenningsdeildar Stjörnunnar,
Ólafur Reimar Gunnarsson, formaður.
HLAUPAHÓPUR
Árið 2022 var gott hjá hlaupahópi Stjörnunnar. Nýliðun í hópnum hefur gengið vel og einnig hafa margir fyrrverandi félagar haldið tryggð við hópinn. Við erum svo lánsöm að hafa náð í Arnar Pétursson sem þjálfara og hefur hann haldið sérstaklega vel utan um alla sem mæta á æfingar. Hann hefur einnig boðið fólki aðgengi að sérstöku æfinga-appi þar sem hámarks ákefð hvers og eins er áætluð og æfingarnar settar upp með hliðsjón af hraða og getu hvers og eins. Arnar endurnýjaði árssamning við HHS síðastliðið haust og virðist kunna vel við þetta þjálfarahlutverk. Halldóra Gyða Proppé hefur einnig komið að þjálfun og leyst Arnar af eftir atvikum.
Árgjaldið er hóflegt og gefinn er makaafsláttur en allar greiðslur fara fram í gegnum Sportabler og í samstarfi við Stjörnuna. Virkir og borgandi meðlimir HHS telja um 100 manns.
Tilvera hlauparans er síbreytileg og til að aðlaga starf HHS að óskum okkar æfingafélaga þá buðum við upp á nýung þar sem tekin var ein inniæfing í viku inni í Miðgarði í vetur. Þar var lögð áhersla á styrktaræfingar og liðleika. Áfram var HHS með útiæfingar frá Ásgarði tvisvar í viku og einnig var boðið upp á eina gæðaæfingu á viku inni í FH-höllinni. Þemað var kallað „tvær inni og tvær úti“ og er þá átt við æfingadagskrána okkar. Æfingadagskráin er sett upp annars vegar fyrir sumarmánuði og hins vegar fyrir vetrarmánuði.
Rennum aðeins yfir liðið ár og helstu viðburði þess:
Í janúar – mars var tíminn nýttur vel til æfinga með áherslu á inniæfingarnar. Aðeins þurfti að taka tillit til fjöldatakmarkana vegna COVID-19 en félagar HHS héldu sínu striki eins og hægt var þrátt fyrir grímuskyldu innandyra.
Í marsmánuði varð þjálfari HHS pabbi þegar stúlka kom í heiminn. Í apríl var haldið sex vikna hlaupanámskeið fyrir nýliða og einnig fór fram aðalfundur HHS. Samskokk með félögum okkar í HHA – Álftanesi fór fram 14. maí þar sem leiðin lá um stígana við Vífilstaðavatn og nærliggjandi hlíðar, 16 km og 9,5 km hringir.
HHS stóð fyrir Stjörnuhlaupi 21. maí í samstarfi við Miðgarð, VHE – vélaverkstæði og Stjörnuna. Þetta var í annað sinn sem hlaupið var ræst frá Miðgarði og brautin lögð um fjölmörg hverfi, holt og hæðir á stígum bæjarins. Í júní var farin velheppnuð utanvegaæfing um Reykjadalinn og gert vel við sig á eftir. Farin var fjölmenn utanvegahlaupaferð í júlí þar sem HHS-félagar rúlluðu yfir Fimmvörðuháls og nutu sín svo vel í Þórsmörk að hlaupi loknu. Árlegir tónleikar í Básum gerðu þessa útilegu HHS ógleymanlega.
Í ágúst fóru svo fjölmargir HHS félagar í Reykjavíkurmaraþon og leystu út sitt form. Vel var fagnað á eftir samkvæmt venju. Þann 3. september var Forsetahlaupið haldið og kom HHS að undirbúningi og skipulagi þess ásamt HHA og UMFÍ. – Tilefnið var 100 ára afmæli UMSK!
Þjálfari HHS, Arnar Pétursson, hefur verið duglegur að koma okkur í form og hvatt til þátttöku í hinum ýmsu hlaupum. Hann hefur einnig fengið til okkar gesti eins og Bowen nuddara og haldið marga fræðslufundi fyrir hópinn. Árið var svo klárað með þátttöku HHS-félaga í Gamlárshlaupi ÍR og fagnað á eftir - eitthvað sem klikkar aldrei.
Fyrir hönd hlauparáðs,
Brynjúlfur Halldórsson,
formaður
GULLMERKI STJÖRNUNNAR MEÐ LÁRVIÐARSVEIG 2022
Þann 31. desember 2022 veitti Sigurður Guðmundsson formaður Stjörnunnar Andrési B. Sigurðssyni Gullstjörnu með lárviðarsveig. Þeir sem hljóta þá heiðursviðurkenningu verða heiðursfélagar Stjörnunnar.
Andrés Betúel Sigurðsson fæddist í Reykjavík þann 13. desember 1947. Hann var af þekktri ætt á Hornströndum þar sem Betúel Betúelsson, afi hans í föðurætt, var kaupmaður og útgerðarmaður í Höfn í Hornvík.
Andrés gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1967. Hann stundaði síðan nám í Háskóla Íslands og lauk viðskiptafræðiprófi 1971.
Starfsferill
Að námi loknu gerðist hann skrifstofustjóri hjá Vörumarkaðnum hf., sem var þekkt stórverslun á þessum tíma og hafði aðsetur í Ármúla. Eftir 12 ára störf hjá Vörumarkaðnum, sumarið 1985, gerðist Andrés framkvæmdastjóri fyrirtækisins Alpan á Eyrarbakka. Það var þá fremur lítið fyrirtæki sem framleiddi búsáhöld, aðallega úr áli fyrir innanlandsmarkað en á tiltölulega skömmum tíma tókst Andrési að snúa rekstri fyrirtækisins við og fljótlega fór langmestur hluti framleiðslu þess á markað erlendis. Hjá Alpan var Andrés, uns honum bauðst að gerast framkvæmdastjóri hins þekkta og gamalgróna fyrirtækis Bræðurnir Ormson hf. í Reykjavík. Það fyrirtæki varð síðan vettvangur hans, allt til starfsloka í árslok 2021, reyndar með stuttu hléi.
Félagsstörf
Snemma fékk Andrés áhuga á félagsmálum og um margra ára skeið helgaði hann JC-hreyfingunni krafta sína. JC-hreyfingin er alþjóðleg og einn fjölmennasti félagsskapur ungs fólks í heiminum. Hún hefur það m.a. á stefnuskrá sinni að veita ungmennum fræðslu og þekkingu á mannlegum samskiptum og drengskap í umgengni. Andrés gegndi mörgum embættum í JC á Íslandi og var kjörinn landsforseti félagsskaparins árið 1980 og árið á eftir var hann kjörinn einn af varaforsetum hreyfingarinnar á heimsþingi JC. Fleiri embættum gegndi Andrés fyrir alþjóðahreyfinguna og árið 1985 bauð hann sig fram sem heimsforseti hennar. Þrír voru í kjöri og þótt Andrés nyti mikils stuðnings náði hann ekki kjöri.
Það var sumarið 1987 sem Andrés hóf afskipti af félagsmálum í UMF Stjörnunni. Erling Ásgeirsson sem verið hafði formaður knattspyrnudeildar félagsins í nokkur ár þurfti að fara til læknismeðferðar erlendis. Hann hafði þá nýlega kynnst Andrési og fór þess á leit við hann að hann tæki við formennskunni af sér. Andrés sem var alinn upp í miklu Framarahverfi í Reykjavík fannst tillaga Erlings í fyrstu fráleit en lét svo undan miklum þrýstingi og tók við embættinu. Segja má að á þessum tíma hafi knattspyrnuvorið í Stjörnunni verið hafið. Meistaraflokkur karla var raunar í 3. deild en yngri flokkar félagsins voru í mikilli sókn og farnir að sækja sér Íslandsmeistaratitla; 2. flokkur kvenna árið 1985 og 3. flokkur karla árið 1986. Næstu árin hlaut Stjarnan Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum næstum árlega og karlaliðið vann sig upp í deild hinna bestu. Starf knattspyrnudeildar margfaldaðist að umfangi og í bókinni „Skíni Stjarnan“ minnist Andrés þessa tíma sem endalausrar baráttu við að fjármagna starfið. Andrés lét ekki bugast og var óþreytandi við fjáraflanir. Margir minnast þess tíma er hann skipulagði ásamt þeim Páli Bragasyni, Ólafi Reimari Gunnarssyni, Jóhannesi Sveinbjörnssyni o.fl., dreifingu á Sjónvarpsvísi í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og fékk til liðs við sig fjöldann allan af Stjörnufólki sem lagði fram ómælda vinnu sem gaf pening í kassann en var ekki síður mikilvægt félagslegt verkefni fyrir hið unga en ört vaxandi félag.
Vegna anna sem framkvæmdastjóri Bræðurnir Ormson hf. varð Andrés að láta af formennsku í knattspyrnudeildinni en þegar hann hætti hjá Ormson um skeið hægðist um hjá honum og lét hann þá undan þrábeiðni um að taka við deildinni að nýju árið 2007. Eitt af hans fyrstu verkum þá var að ráða Bjarna Jóhannsson sem þjálfara og þar með hófst blómaskeið Stjörnunnar sem náði hámarki með Íslandsmeistaratitlinum í karlaflokki árið 2014, á sama tíma og Stjarnan vann hvern titilinn af öðrum í kvennaflokki.
Störf í bæjarstjórn Garðabæjar
Samhliða sinnti Andrés öðrum félagsmálum í Garðabæ. Í bæjarstjórnarkosningunum árið 1990 var hann kjörinn í bæjarstjórn og sat þar í fjögur ár og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var m.a. formaður íþrótta- og tómstundaráðs og vann ötult starf á þeim vettvangi.
Öll sín störf fyrir Stjörnuna og bæjarfélagið vann Andrés af slíkum áhuga og einlægni að eftir var tekið.
Hann lét sig aldrei vanta á leiki hjá félaginu og á sinn hógværa hátt hvatti hann íþróttafólkið með nærveru sinni og uppörvun. Alla tíð síðan hefur hann fylgst náið með Stjörnunni og verið fastagestur á leikjum og í starfi félagsins auk þess sem fyrirtæki hans hefur veitt öflugan fjárhagslegan stuðning.
SKÝRSLA FIMLEIKADEILDAR
Árangur á árinu í barna- og unglingastarfinu
Árangur í yngra barna starfi fimleikadeildarinnar var mjög góður árið 2022. Iðkendur Stjörnunnar voru oftast í topp þremur sætunum, bæði í áhaldafimleikum og hópfimleikum í öllum aldursflokkum. Þessi unnu titla á árinu:
Katla María Geirsdóttir varð Íslandsmeistari í 1. þrepi, Sigurrós Ásta Þórisdóttir varð Íslandsmeistari í 2. þrepi og Þorbjörg Rún Emilsdóttir varð Íslandsmeistari í 3. þrepi.
Lið Stjörnunnar í 2. þrepi varð Íslandsmeistari í 2. þrepi en liðið skipaði Sigurrós Ásta, Steinunn Kamilla og Líney.
Stúlkurnar í 2. flokki urðu bæði bikarmeistarar og Íslandsmeistarar í 2. flokki.
Stúlkurnar í 3. flokki A urðu Íslandsmeistarar í 3. flokki í hópfimleikum.
Stúlkurnar okkar í 1. flokki unnu sér inn keppnisrétt á Norðurlandamót unglinga sem fram fór í Danmörku 9. apríl. Þær stóðu sig vel og eru reynslunni ríkari.
Meistaraflokkar
Stjarnan er með meistaraflokk karla og meistaraflokk kvenna. Keppendur í meistaraflokki eru á aldrinum 17 til 28 ára. Þjálfarar kvennaliðsins 2022 voru: Una Brá Jónsdóttir, Daði Snær Pálsson, Tanja Kristín Leifsdóttir. Meistaraflokkur kvenna varð Íslands- og bikarmeistari 2022.
Þjálfarar karlaliðsins 2022 voru: Mikkel Shcertz, Erla Rut Mathiesen, Fjölnir Þrastarson og Þorbjörn Bragi Jónsson. Meistaraflokkur karla varð bæði Íslands- og bikarmeistari 2022.
Landslið
Evrópumótið í hópfimleikum fór fram í Lúxemborg í september 2022. Íslands mætti með fimm lið á mótið og átti Stjarnan 27 iðkendur og fimm landsliðsþjálfara. Kvennaliðið varð í 2. sæti en í liðinu átti Stjarnan 10 iðkendur af 13 og tveir af fjórum þjálfurum voru meistaraflokksþjálfarar Stjörnunnar. Karlaliðið varð í 4. sæti en allt liðið eru iðkendur í meistaraflokki Stjörnunnar. Auk þess eru tveir af þremur þjálfurum meistaraflokksþjálfarar Stjörnunnar. Stúlknaliðið lenti í 3. sæti og í liðinu voru tveir iðkendur frá Stjörnunni og einn þjálfari. Blandað lið unglinga varð í 5. sæti og voru þrír iðkendur frá Stjörnunni. Drengjaliðið náði 5. sæti og var einn iðkandi frá Stjörnunni í liðinu.
Ásta Kristinsdóttir iðkandi Stjörnunnar var valin í All star liðið og var hún einnig valin íþróttakona Garðabæjar fyrir árið 2022.
Eva Ívarsdóttir, Katla María Geirsdóttir og Þóranna Sveinsdóttir voru í úrvalshópi í áhaldafimleikum stúlkna. Katla María var valin til að keppa á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum í stúlknaflokki sem fram fór á Íslandi í júlí 2022.
Rekstur
Reksturinn gengur ágætlega. Tekin var ákvörðun um að allir þjálfarar eldri en 18 ára yrðu launþegar á tímakaupi.
Samtals iðkuðu 627 fimleika á vorönn 2022 og á haustönn 2022 stundaði 681 fimleika. Við bárum saman iðkendatölur síðustu ára og sáum að iðkendum hefur fjölgað hægt og rólega hjá fimleikadeildinni, sérstaklega í áhaldafimleikum. Það eru þó ávallt fleiri iðkendur á haustin en vorin.
Áhöld
Árið 2022 fékk salurinn fimm nýjar slár en gömlu slárnar voru yfir 20 ára gamlar og sláardýnur sem var búið að bíða lengi eftir. Auk þess fengum við nýtt dansgólf fyrir hópfimleikana en gamla gólfið var ansi illa lyktandi og komin mjög mörg djúp og hættuleg göt í það. Því miður var ekki sett rétt undirlag undir nýja gólfið og fljótlega fór að bera á því að rifur væru komnar í nokkra renninga. Auk þess voru keyptir nýir kubbar til stuðning, nýr hlauparenningur og trampólín. Árið 2023 stefnum við á að kaupa nýja tvíslá og nýja svifrá auk þess að bæta við og endurnýja ýmsa kubba og halla sem nýttir eru í þjálfun hjá báðum greinum.
Lokaorð
Deildin vill þakka framkvæmdastjóra og skrifstofu fyrir gott samstarf á árinu. Þjálfarar eiga hrós skilið fyrir gott starf sem hefur sannarlega skilað sér í frábærum árangri á árinu. Starfsfólki Ásgarðs þökkum við einnig fyrir vel unnin störf og gott viðmót. Síðast en alls ekki síst vill stjórn þakka öllum þeim iðkendum, sjálfboðaliðum, foreldrum, styrktaraðilum og öðrum sem hafa unnið ómetanlegt starf fyrir deildina síðastliðin ár.
Fyrir hönd stjórnar fimleikadeildar,
Ingibjörg Jóhanna Vilhjálmsdóttir,
formaður
DEILD ÁRSINS 2022
FIMLEIKADEILD
Fimleikadeild Stjörnunnar fær nafnbótina „Deild ársins 2022“. Meistaraflokkur kvenna hlaut Íslands- og bikarmeistaratitil á árinu. Meistaraflokkur karla vann einnig báða titla sem í boði voru en Stjarnan er jafnframt eina félagið sem heldur úti öflugu meistaraflokksstarfi í karlaflokki á landinu.
Lið meistaraflokks karla í Stjörnunni er því uppistaðan í landsliði okkar Íslendinga í hópfimleikum karla en þeir náðu 4. sæti á EM í hópfimleikum árið 2022. Í áhaldafimleikum urðu Stjörnustúlkur Íslandsmeistarar í 1., 2. og 3. þrepi. Barna- og unglingastarf deildarinnar er í miklum blóma og komast færri að en vilja til að iðka íþróttina undir merkjum Stjörnunnar.
SKÝRSLA HANDKNATTLEIKSDEILDAR
Handboltinn í Garðabæ er í jöfnum vexti og fram undan eru spennandi tímar þar sem nýjar kynslóðir eru að koma sterkar inn í meistaraflokkana. Við sjáum fram á heilbrigða endurnýjun þar sem ungir leikmenn spila sína fyrstu leiki en þeir eldri spila sín síðustu tímabil. Við erum með sterkan kjarna af leikmönnum sem eru í fremstu röð hér heima. Það hefur verið markmið handknattleiksdeildar um nokkurt skeið að ala upp og veita ungum leikmönnum krefjandi verkefni við hæfi. Nú stíga talsvert margir leikmenn stíga hratt upp og eru farnir að gera tilkall um stöður í meistaraflokksliðunum. Margir mjög efnilegir leikmenn eru að þroskast og styrkjast sem við bindum vonir við að muni ná langt.
Líkt og í mörgum íþróttagreinum horfa yngri iðkendur til þeirra eldri og ekki síst til atvinnu- og landsliðsmanna með þann draum að á einhverjum tímapunkti verði þeir í þeirra sporum. Gengi meistaraflokka félagsins og ekki síst landsliðsins endurspeglast gjarnan í starfi í yngri flokka hvað varðar fjölda og áhuga á íþróttinni. Það hefur margsýnt sig að afrekstarf innan félags og árangur landsliða hefur veruleg áhrif á yngri flokka starfið. Það er því er mjög mikilvægt að halda einbeitingu og með krafti og metnaði að vera í fremstu röð á sama tíma og við viljum að allir hafi verkefni við hæfi og líði vel við iðkunina.
Því miður hefur Covid haft þau áhrif að aðsókn á leiki hefur ekki náð fyrri fjölda. Sjálfboðaliðum hefur farið fækkandi og er það verkefni sem allar íþróttagreinar í flestum íþróttafélögum glíma við.
Til að halda úti öflugu íþróttastarfi þarf fjölda sjálfboðaliða og því miður virðast yngri kynslóðir ekki vera að skila sér inn í sjálfboðaliðastarfið. Íþróttafélögin eru ekkert án fólksins. Það er einnig spurning hvort íþróttahreyfingin þurfi ekki að endurskoða það módel sem hún starfar eftir því að öðrum kosti er hætta á því að það molni undan einni af helstu stoðum hreyfingarinnar. Ef yngri kynslóðir skila sér ekki inn í sjálfboðaliðastarfið mun það kalla á að sveitarfélög og ríki þurfi að koma með mun myndarlegri hætti að rekstri íþróttahreyfingarinnar í heild sinni. Eins og flest vita taka íþróttafélögin að stórum hluta við krökkunum þegar skóladegi lýkur og ekkert er eins mikilvægt og að halda vel utan um unga fólkið okkar. Það er ekkert eins gott og hollt og að stunda íþróttir. Íþróttirnar kenna krökkunum að skipuleggja sig, kenna þeim sjálfsaga, að vinna í hóp og þær eru félagslega eitt af því besta sem þau kynnast og margsannað að eru mjög gott veganesti inn í framtíðina.
Stuðningur fyrirtækja við íþróttir er ómetanlegur og einn af lykilþáttum til að halda úti öflugu íþróttastarfi. Handknattleiksdeildin hefur verið afar lánsöm í gegnum tíðina hvað varðar vilja fyrirtækja við að styðja við okkur. En nú eru blikur á lofti og í því ástandi sem er að skapast í þjóðfélaginu hafa mörg fyrirtæki séð sig knúin til að draga úr styrkjum til íþróttafélaga og jafnvel hætta. Eins og gefur að skilja hefur þessi staða veruleg áhrif á rekstur handknattleiksdeilar sem var krefjandi fyrir.
Í öllum áskorunum felast tækifæri. Handknattleiksdeild Stjörnunnar er að vinna mjög markvisst að viðbrögðum við breyttum aðstæðum og fer í breytingar til þess að gera samstarf með deildinni áhugaverðara, bæði fyrir sjálfboðaliða og styrktaraðila.
Við viljum þakka öllum þeim sem hafa styrkt og starfað með okkur í gegnum tíðina. Sérstaklega viljum við þakka því fólki sem vinnur í sjálfboðastörfum fyrir fyrir félagið okkar og æsku bæjarins.
Fyrir hönd stjórnar,
Pétur Bjarnason,
formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar
SKÝRSLA KNATTSPYRNUDEILDAR
Knattspyrnudeild Stjörnunnar er ein stærsta íþróttadeild barna- og unglingastarfs á Íslandi. Hjá Stjörnunni æfa um 1.000 iðkendur frá 8. flokk og upp í 2. flokk. Starfið er í miklum blóma og lagt er upp úr því að allir hafi kost á því að æfa knattspyrnu hjá Stjörnunni.
Skráðum iðkendum fjölgar stöðugt og með hverju árinu aukast kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sjá um þjálfun hjá félaginu. Stjarnan leggur mikinn metnað í að ráða til sín reynslumikla og hæfa þjálfara en einnig er horft til þess að gefa ungum og upprennandi þjálfurum sín fyrstu tækifæri með styrkri leiðsögn. Alls starfa um 25 þjálfarar hjá félaginu að staðaldri ásamt fjöldanum öllum af aðstoðarþjálfurum sem koma frá félaginu í formi iðkenda úr 3.-4. flokki. Hugsanlega eru framtíðarþjálfarar okkar einmitt í þeim hópi.
Á hverju ári sækja allir þessir um 1.000 iðkendur um 2.500 klukkutíma af æfingum. Það er ljóst að það krefst mikils skipulags að halda utan um þennan fjölda iðkenda og æfinga. Þarna er þó enn ótalinn allur sá fjöldi leikja sem er spilaður, bæði í formi Íslands- og bikarmóta hjá eldri iðkendum og skemmtilegum sumarmótum hjá þeim yngri. Ekki væri hægt að halda úti þessu starfi án þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða í hópi foreldra barnanna. Þeim ber sérstaklega að þakka fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins.
BARNA- OG UNGLINGASTARF
Á haustmánuðum síðasta árs var ráðinn annar yfirþjálfari yngri flokka, Andri Freyr Hafsteinsson, sem starfar nú við hlið Páls Árnasonar sem einnig er yfirþjálfari yngri flokka. Með ráðningu á öðrum yfirþjálfara er stigið skref í átt að meiri fagmennsku og skipulagi þar sem lagt er upp með að sinna iðkendum með æfingum og verkefnum sem henta hverjum og einum.
Opnun Miðgarðs á síðasta ári var mikil lyftistöng fyrir starfið. Við sjáum það sérstaklega í fjölgun iðkenda hjá yngstu flokkunum. Vissulega hafa komið upp byrjunarörðuleikar en ég er sannfærður um að Miðgarður muni skila okkur fleiri og sterkari iðkendum.
Stjarnan átti flotta fulltrúa sem spiluðu fyrir hönd Íslands í yngri landsliðum. Katrín Erla Clausen Þórðardóttir, Sandra Hauksdóttir, Hrafnhildur Salka Pálmadóttir, Högna Þóroddsdóttir og Sóley Edda Ingadóttir spiluðu sína fyrstu landsleiki fyrir U15 landsliðið. Ásamt þeim spiluðu Hrefna Jónsdóttir og Júlía Margrét Ingadóttir landsleiki fyrir U16. Tómas Óli Kristjánsson og Gunnar Orri Olsen spiluðu landsleiki fyrir U15, ásamt þeim Kjartani Má Kjartanssyni og Allan Purisevic sem spiluðu fyrir bæði U16 og U17 landsliðin. Aldeilis frábær árangur hjá þessum ungu iðkendum sem eiga framtíðina fyrir sér.
Árangur Stjörnunnar í yngri flokkum var einnig til fyrirmyndar. A lið 3. flokks karla lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu og náði einnig þeim frábæra árangri að komast í úrslit á Gothia Cup þar sem liðið tapaði naumlega. A lið 4. flokks kvenna lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu og eins og strákarnir í 3. flokk komust stelpurnar einnig í úrslit á Gothia Cup og lentu þar í 2. sæti. Þá varð B lið 4. flokks kvenna Íslandsmeistari sem og C lið 4. flokks kvenna. A lið 5. flokks kvenna varð Símamótsmeistari og C lið 5. flokks kvenna lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu. Það er ljóst að framtíðin hjá Stjörnunni er björt.
Við hjá Stjörnunni erum svo heppin að TM-mótið sem haldið er í apríl ár hvert styrkir starfið myndarlega. TM-mótið stendur straum af kostnaði við sjúkraþjálfara sem eru til taks fyrir yngri iðkendur einu sinni í viku. Iðkendur geta leitað til sjúkraþjálfara með aðstoð og endurhæfingu vegna meiðsla. Þá geta þeir leitað ráða um fyrirbyggjandi æfingar. TM-mótið styrkti enn fremur kaup á tveimur VEO-myndbandsupptökuvélum af nýjustu gerð sem geta m.a. streymt leikjum beint.
Skíni Stjarnan!
Sævar Már Þórisson,
formaður barna- og unglingaráðs
MEISTARAFLOKKUR KVENNA
Kristján Guðmundsson þjálfari er á sínu fjórða tímabili og þeir Andri Freyr Hafsteinsson aðstoðarþjálfari og Rajko Stanisic markmannsþjálfari á sínu þriðja tímabili. Að auki var hlaupaþjálfari á undirbúningstímabilinu. Þá kom Hulda Björk Brynjarsdóttir inn í teymið sem liðstjóri.
Styrktarþjálfun liðsins er mjög góð sem skilaði sér í því að mjög fáir leikmenn voru frá vegna meiðsla. Allt tímabilið spilaðist án þess að nokkur leikmaður lenti í vöðvatognun. Í upphafi undirbúningstímabilsins fóru leikmenn í sérstakar mælingar og skoðun hjá Greenfit sem var svo endurtekið og gaf það góða mynd af líkamlegu atgervi. Unnið hefur verið markvisst að því að bæta umgjörð liðsins.
Tímabilið hófst á Lengjubikarnum og fór liðið alla leið í úrslitaleik sem tapaðist naumlega. Silfurverðlaun því staðreynd og sannfærandi sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum í undanúrslitum gaf góð fyrirheit fyrir sumarið.
Í Bikarkeppni KSÍ féll liðið úr leik í undanúrslitum eftir tap fyrir Val sem enduðu á að vinna bikarkeppnina.
Íslandsmótið var tvískipt vegna þátttöku kvennalandsliðs Íslands í úrslitakeppni EM. Liðið fór í æfingaferð til Spánar í hléinu og kom sterkt inn í seinni hluta mótsins sem að lokum skilað 2. sætinu og þar með þátttöku í Evrópukeppninni. Við áttum auk þess markadrottningu Íslandsmótsins og þrjá af fjórum markahæstu leikmönnum tímabilsins sem er magnaður árangur.
Ekki er hægt að segja annað en að mjög vel hafi tekist til við uppbyggingu á liði sem farið er að berjast af alvöru um stóru titlana sem eru í boði. Markviss uppbygging með blöndu ungra og reyndari leikmanna. Margir leikmenn spiluðu fyrir yngri landslið Íslands auk þess sem Stjarnan átti fulltrúa í A-landsliði Íslands og U23 ára landsliði sem hefur verið endurvakið.
Kvennalið Stjörnunnar er komið á þann stað að berjast um titla sem er árangur þrautlausrar vinnu leikmanna og þjálfara.
Gunnar Leifsson,
formaður meistaraflokksráðs kvenna
MEISTARAFLOKKUR KARLA
Áfram var haldið á þeirri vegferð að styðja við enduruppbyggingu liðsins eftir tímabilið 2021. Það var ljóst að þau skref sem yrði að taka árið 2022 yrðu að vera fremur stór. Nýtt þjálfarateymi var ráðið þar sem Ágúst Gylfason tók við og fékk félagið Jökul Elísabetarson honum til aðstoðar og til að stíga enn frekari skref í átt að því að koma liðinu lengra var Þór Sigurðsson ráðinn sem styrktarþjálfari liðsins en þeir Raiko og Friðrik Ellert héldu áfram ásamt liðstjórunum okkar þeim Davíð og Pétri.
Eftir mikil vonbrigði tímabilið 2021 var ljóst að það þurfti að ráðast í gagngera enduruppbyggingu á ákveðnum þáttum. Liðið hafði hreinlega setið verulega eftir í þróun, nýtingu á tækni og í raun og veru undirbúningi ásamt þeirri staðreynd að liðið var þrátt fyrir uppbyggingu 2020 og 2021 enn of gamalt. Þau skref sem þurfti að stíga voru samkvæmt því plani sem sett var fram af stjórn mjög stór á milli tímabila 2021 og 2022. Það var því ljóst að það þurfti annars vegar talsverða vinnu við að koma liðinu á þann stað sem önnur lið voru komin og svo þurfti líka mikið hugrekki og áræðni við þær gríðarlegu breytingar sem þurfti að gera. Þeir leikmenn sem voru kvaddir eftir tímabilið 2021 voru: Arnar Darri Pétursson, Casper Sloth, Eyjólfur Héðinsson, Halldór Orri Björnsson sem hætti, Heiðar Ægisson, Kristófer Konráðsson, Kári Pétursson, Magnus Anbo, Oscar Borg og Sölvi Guðbjargarson. Samtals tíu leikmenn voru því kvaddir ásamt því að líklegt var að einhverjir fleiri myndu hverfa á braut þegar keppnistímabilið hæfist. Þá urðum við fyrir þeim skelli að Hilmar Árni, okkar jafnbesti maður, lenti í alvarlegum meiðslum og því ekki með tímabilið 2022. Fáir hópar ráða við viðlíka breytingar ofan á allar þær breytingar sem höfðu átt sér stað 2020 og 2021. Við fengum hins vegar fjóra leikmenn til liðs við okkur en það voru Daníel Finns, Óskar Örn Hauksson, Jóhann Árni Gunnarsson og Sindri Þór Ingimarsson. Ljóst var að tækifæri fyrir unga leikmenn myndu verða mikil. Liðið fór í æfingaferð til Spánar og spilaði hefðbundna æfingaleiki. Í þeim mótum sem voru á undirbúningstímabilinu kom í ljós að sú vinna sem lagt var af stað með myndi breyta ásýnd Stjörnunnar umtalsvert. Liðið hafði nánast alltaf verið elsta liðið og spilað fótbolta á ákveðinn máta sem nú var ákveðið að víkja frá ásamt því að uppfæra verulega þá þætti sem við höfðum setið eftir með á árunum á undan eða hreinlega ekki haft kunnáttu til að nýta til fullnustu. Í byrjun tímabilsins seldum við Daníel Frey Kristjánsson til Midjylland í Danmörku og skömmu síðar var Óli Valur Ómarsson seldur til Sirius í Svíþjóð. Þetta voru meðal þeirra markmiða sem nýtt meistaraflokksráð setti sér árið 2020 og var einkar ánægjulegt að sjá uppalda Stjörnumenn stíga skrefið erlendis. Félagið hafði árið áður selt Alex Þór Hauksson utan og þannig voru þrír Stjörnumenn farnir út með skömmu millibili.
Það varð snemma ljóst að þau tækifæri sem ungir leikmenn fengu og nýttu höfðu áhrif á þá sem fyrir voru. Eftirfarandi leikmenn voru því seldir, lánaðir eða fengu að fara á meðan á tímabilinu stóð: Þorsteinn Már Ragnarsson, Þorsteinn Aron, Brynjar Gauti Guðjónsson og Oliver Haurits. Staðan var þá orðin þannig að félagið hafði misst eða losað 10 leikmenn frá 2021 auk þeirra sem voru seldir utan og þeirra sem kvöddu á tímabilinu og meiddust. Það má því segja að 17 leikmenn hafi verið kvaddir frá vetri 2021 og fram á mitt sumar 2022. Þetta eitt og sér eru langstærstu breytingar sem nokkurt félag hefur staðið frammi fyrir og kemur til viðbótar við alla þá leikmenn sem voru kvaddir á árunum 2020 og 2021. Það má því segja að í lok tímabilsins 2022 hafi verið kominn vísir að þeim kynslóðaskiptum sem nauðsynlega þurfti að ráðast í og hafði því miður ekki verið gert. Þetta mun fylgja félaginu áfram þar sem aldursdreifing og annað skekkist verulega við slíkar umbyltingar. Ég vil hins vegar þakka öllum þeim leikmönnum sem hurfu á braut kærlega þeirra framlag.
Tímabilið sjálft var skemmtilegt. Margir ungir leikmenn spiluðu og við slógum nokkur 60-70 ára gömul met. Ungir leikmenn hjá okkur spiluðu t.a.m. næstum fjórum sinnum fleiri mínútur en ungir leikmenn allra annarra liða til samans. Þetta mun koma til með að hjálpa okkur til framtíðar og hefur gert það að verkum að félagið hefur aldrei átt jafn mikinn fjölda af unglingalandsliðsmönnum eins og núna. Árangurinn innan vallar var vel ásættanlegur en liðið tryggði sér sæti í efri úrslitakeppni og endaði tímabilið í 5. sæti. Við vorum það félag sem hafði hæst hlutfall uppalinna leikmanna í sínum herbúðum. Þar hefur hlutfallið vaxið gríðarlega á stuttum tíma en fyrir tæpum þremur árum vorum við þar með lægstu liðum.
Sú gríðarlega mikla vinna sem var lögð í tímabilið mun koma til með að skila okkur árangri til framtíðar. Það er ljóst að umhverfið er farið að átta sig betur á þeirri vegferð sem nýtt meistaraflokksráð ákvað að fara við enduruppbyggingu á liðinu og það má búast við því að liðið haldi áfram að vaxa á komandi árum. Það þarf að halda vel á spilunum þar sem félagið er því miður í þeirri stöðu að að geta ekki keppt við önnur lið sökum fjármagns. Þrátt fyrir að við séum ítrekað rekin réttum megin við núllið þá er ljóst að það þarf verulega að skoða hvernig málum er háttað við stuðning bæjaryfirvalda og ekki síst fyrirtækja í bænum við afreksíþróttir því þar horfum við öfundaraugum til nágranna okkar báðum megin við okkur.
Við hlökkum til tímabilsins 2023 þegar við stígum síðustu skrefin varðandi leikmannabreytingar en strax á haustdögum 2022 kvöddum við Elís Rafn Björnsson, Ólaf Karl Finsen, Óskar Örn Hauksson og Einar Karl Ingvarsson til viðbótar við þá leikmenn sem kvatt höfðu. Því má segja sem svo að endurnýjun leikmannahóps Stjörnunnar sé komin á þann stað sem önnur lið jafnan eru þar sem eðlilegar breytingar geta átt sér stað milli tímabila. Það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og það verður gaman að sjá þjálfarateymið stíga þau skref sem eðlilegt er að liðið stígi fyrir komandi tímabil. Persónulega vil ég þakka þjálfarateyminu, starfsmönnum félagsins og félögum mínum í meistaraflokksráðinu fyrir samstarfið í gegnum þær gríðarlega miklu breytingar sem ráðist hefur verið í á þessum þremur árum síðan ég tók við sem formaður. Þær voru nauðsynlegar en ákaflega erfiðar. Vonandi verða menn vakandi fyrir því að koma félaginu ekki aftur í þá stöðu að þurfa að fara í gegnum viðlíka enduruppbyggingu því áhrif þess munu og geta fylgt liðinu lengi.
Helgi Hrannarr Jónsson,
formaður meistaraflokksráðs karla
LOKAORÐ
Óhætt er að segja að árið 2022 hafi verið viðburðaríkt knattspyrnuár. Knattspyrna var loks spiluð án Covid-takmarkana en ákveðnar takmarkanir höfðu verið frá ársbyrjun 2020. Vonandi þurfum við ekki að takast á við slíkt aftur. Starf deildarinnar gekk heilt yfir mjög vel og blómstraði starfið á mörgum sviðum. Þar má nefna glæsilegan árangur meistaraflokks kvenna þar sem stelpurnar tryggðu sér 2. sæti á Íslandsmótinu og þar með þátttökurétt í Evrópukeppni á árinu 2023. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í kvennastarfinu undanfarin ár og voru leikmenn, þjálfarar, stjórn og stuðningsmenn að uppskera eftir þá vinnu. Virkilega vel gert! Samhliða góðum árangri meistaraflokks kvenna unnust margir glæstir sigrar hjá yngri flokkum félagsins, bæði karla og kvenna megin. Þess má geta að barna- og unglingastarfið hefur aldrei verið jafn fjölmennt og nú. Meistaraflokkur karla hafnaði í 6. sæti deildarinnar eftir 22 umferðir og við tók nýtt fyrirkomulag sem er úrslitakeppni. Að úrslitakeppni lokinni var niðurstaðan 5. sæti sem verður að teljast ásættanleg niðurstaða miðað við þær breytingar sem orðið hafa á liðinu. Mikill fjöldi ungra uppalinna leikmanna spilaði fyrir meistaraflokk karla og lítum við björtum augum til framtíðar.
Nýja knatthúsið í Garðabæ, Miðgarður, var opnað í lok apríl 2022 við mikil hátíðarhöld. Það má með sanni segja að um glæsilegt mannvirki sé að ræða. Á komandi árum mun Stjarnan njóta góðs af þessu glæsilega húsi.
Á vormánuðum urðu formannsskipti í barna- og unglingastarfinu og lét Halldór Ragnar Emilsson af formennsku. Halldór var formaður b&u frá árinu 2017 ásamt því að sinna þjálfun hjá félaginu í fjölda ára. Þökkum við Halldóri innilega fyrir frábært samstarf og mikla og óeigingjarna vinnu fyrir félagið.
Undir lok tímabilsins lét Ejub Purisevic afreks- og yfirþjálfari karla af störfum og þökkum við honum fyrir frábært samstarf. Ejub kom að þjálfun margra ungra og efnilegra leikmanna sem munu springa út á næstu árum. Takk, Ejub!
Að lokum vil ég fyrir hönd knattspyrnudeildar þakka öllum þjálfurum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, stjórnarmönnum og starfsmönnum sem komu að starfi knattspyrnudeildar fyrir gott samstarf. Höldum áfram að gera gott betra, framtíðin er björt.
Skíni Stjarnan!
Fyrir hönd knattspyrnudeildar,
Sæmundur Friðjónsson,
formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar
LIÐ ÁRSINS 2022
MEISTARAFLOKKUR KVENNA Í FÓTBOLTA
Lið meistaraflokks kvenna í knattspyrnu tryggði sér 2. sætið í Bestu deild kvenna á árinu 2022. Sá árangur gefur liðinu keppnisrétt í Evrópukeppni félagsliða árið 2023. Hópurinn er mjög samheldinn og hefur liðið tekið miklum framförum á síðustu árum.
Kristján Guðmundsson og Andri Freyr Hafsteinsson eiga hrós skilið fyrir sín störf; þeir hafa náð að setja saman sérlega metnaðarfullan hóp. Það verður gaman fyrir stuðningsmenn Stjörnunnar að fylgjast með liðinu á næstu árum.
SKÝRSLA KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR
Tímabilið 2021-2022 var upp og niður hjá meistaraflokki karla. Liðið endaði í 6. sæti í deildinni í fyrra og tapaði 3-0 gegn verðandi Íslandsmeisturum Vals í átta liða úrslitum. Liðið náði aldrei almennilegum takti í deildinni. Það var töluvert breytt frá árinu áður, stærsta breytingin var að Ægir Þór Steinarsson var farinn í atvinnumennsku og reyndist erfitt að fylla hans skarð. Tvíburarnir að vestan, Hugi og Hilmir, héldu vestur um haf í skóla, Orri Gunnarsson ákvað að fara í 1. deildina og spila með Haukum og enginn af erlendu leikmönnunum var endurráðinn. Auk nýrra erlendra leikmanna komu þeir Ragnar Nathanaelsson og Hilmar Smári Henningsson til liðs við félagið. Ragnar var ekki í stóru hlutverki en Hilmar var í lykilhlutverki og sýndi oft á tíðum við hverju má búast við af honum í framtíðinni, gífurlega efnilegur leikmaður.
Eins og undanfarin ár var allt annað uppi á teningnum í VÍS-bikarnum. Keppnin byrjaði fyrir okkar menn á erfiðum útleik gegn Tindastóli sem var klárlega eitt af toppliðunum. Okkar menn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu 78-79 í miklum spennuleik. Í átta liða úrslitum fengum við Grindavík heima og sigruðum nokkuð örugglega, 85-76. Þar með var Stjarnan komin í „Final Four“ fjórða árið í röð. Stjarnan dróst á móti liði Keflavíkur í undanúrslitum sem á þeim tíma sat á toppi deildarinnar og þóttu mun sigurstranglegra. Í einum mest spennandi körfuboltaleik sem Stjarnan hefur tekið þátt í hafðist sigur, 95-93, eftir framlengingu. Það má segja að Keflavíkingar hafi verið heppnir að koma leiknum í framlengingu en í framlengingunni voru Keflvíkingar með unninn leik í höndunum, staðan 88-93 þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum.
MEISTARAFLOKKUR KARLA
Gunnar Ólafsson sem er ekki þekktur fyrir þriggja stiga skotin sín setti niður risaþrist, Keflavík klikkað í næstu sókn og Robert Turner kláraði leikinn á lokasekúndunum með einum svakalegasta þristi sem maður man eftir. Úrslitaleikurinn var síðan gegn Þór Þ og þar voru líkurnar heldur ekki með Stjörnunni. Okkar menn sigruðu þó eftir hörkuleik, 93-85, og tryggðu sér þriðja titilinn á fjórum árum
Fyrir tímabilið 2022-2023 settist stjórnin niður og ræddi framtíð meistaraflokkanna og stefnu Stjörnunnar i leikmannamálum á tímum þegar erlendir leikmenn eru að taka deildirnar yfir. Það hefur alla tíð verið lítil stemming innan körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar að taka þátt í þeirri stefnu sem á sér stað í mörgum liðum þar sem fimm erlendir leikmenn eru orðnir normið og yngri flokka starfið situr á hakanum. Stjórnin setti niður á blað áætlun um fyrirkomulag um skipan meistaraflokkanna, burtséð frá því hvort önnur félög verði með 10 erlenda leikmenn eða ekki. Okkar sýn er að innan ekki langs tíma verði 12 manna hópar Stjörnunnar mannaðir átta uppöldum leikmönnum, tveimur Íslendingum sem ekki eru uppaldir Stjörnumenn á landsliðsstyrk og helst ekki fleiri en tveimur erlendum leikmönnum. Kvenna megin erum við í toppmálum hvað þetta varðar og karla megin erum við byrjuð að stíga ákveðin skref í þessa átt. Fyrir tímabilið kom Friðrik Anton heim eftir stutta dvöl á Álftanesi. Á miðju tímabili kom Dagur Kár aftur heim. Þannig að í hópnum í vetur vorum við með Kristján Fannar, Dag Kár, Tómas Þórð og Friðrik Anton í stórum hlutverkum, allt uppaldir leikmenn. Kristján gekk til liðs við félagið frá Keflavík í yngri flokkunum. Síðan er spurning hvernig við flokkum þá Hlyn og Arnþór sem hafa verið 7-8 ár í Stjörnunni. Þá tóku ungu mennirnir Ásmundur Múli og Viktor Jónas sín fyrstu skref í meistaraflokki sem eiga örugglega eftir að verða fleiri. Þannig að það má segja að Stjarnan hafi verið með 7-8 rótgróna Stjörnumenn í hópi, þrjá erlenda leikmenn og Júlíus Orra.
Fyrir yfirstandandi tímabil var farið yfir markmiðasetningu meistaraflokkanna. Karla megin var ljóst að liðið myndi ekki keppa um titla og ekki lagt upp með það heldur að gefa ungum leikmönnum tækifæri, byggja upp til framtíðar. Kristján Fannar hafði fengið nasasjón af meistaraflokki árið áður, aðeins 16 ára gamall. Hann fékk stórt hlutverk í liðinu í vetur. Friðrik Anton byrjaði flesta leiki fyrri hluta tímabilsins. Hann hefur sýnt það á köflum að hann getur orðið alvöruúrvalsdeildarleikmaður, er frábær skytta og þarf að nota sumarið vel og koma enn sterkari til leiks í haust. Síðan kom til okkar einn af efnilegri leikmönnum landsins, Júlíus Orri Ágústsson frá Akureyri. Eftir erfiða byrjun hefur hann verið mjög vaxandi og staðið undir væntingum. Hins vegar er deildin þannig að það er mjög lítið rými til að gefa ungum mönnum tækifæri þegar stór hluti liðanna er kannski með fimm atvinnumenn í sínum röðum. Stjarnan er það lið sem gefur ungum leikmönnum flestar mínútur í efstu deild á tímabilinu sem er mjög ánægjulegt.
Eins og oftast urðu breytingar á hópnum fyrir tímabilið. Hilmar Smári hélt heim í Hauka, Raggi Nat fór heim í Hveragerði og ekki var samið aftur við David Gabrovsek og Shawn Hopkins. Í stað þeirra komu þeir Friðrik Anton og Júlíus Orri og samið var við stóran miðherja frá Litháen, Julius Jucikas, og danska leikstjórnandann Adama Darbo sem hafði átt mjög gott tímabil árið áður með KR. Ákveðið var er endursemja við Robert Turner þrátt fyrir að hlutirnir hefðu kannski ekki gengið upp árið áður. Turner er án efa einn hæfileikaríkasti leikmaður sem leikið hefur með Stjörnunni. Það gat verið ótrúlega gaman að horfa á hann spila körfubolta. Planið var að fá með honum reyndan leikstjórnanda í Adama og hann myndi gagnast liðinu betur þannig. Það reyndust þó vera mistök og hlutirnir gengu ekki upp og yfirgaf hann félagið í lok desember ásamt Juliusi sem fann sig ekki. Í þeirra stað komu þeir Armani Moore og William Gutenius og að lokum kom Dagur Kár heim að nýju. Tómas Þórður hafði ekki náð að beita sér vegna þrálátra meiðsla og fór í aðgerð á báðum fótum í janúar. Þannig að tímabilið var eiginlega framhald af síðasta tímabili, fjölmargt sem gekk ekki upp. Það eru þó spennandi tímar fram undan og margt í gangi sem væntanlega verður farið yfir í næstu skýrslu.
Lokaorð
Það hefur verið árlegt í þessum pistlum að lýsa yfir áhyggjum af þróuninni í íslenskum körfubolta. Íslenskum leikmönnum hefur fækkað um 100 í tveimur efstu deildum karla á síðustu fjórum árum á sama tíma og erlendum leikmönnum fjölgar ár frá ári. Forysta sambandsins horfir aðgerðalaus á og virðist engan áhuga hafa á að taka stefnumótandi ákvarðanir, lætur þetta alfarið í hendur þingsins sem er gjörsamlega óhæfur vettvangur til að taka stefnumótandi ákvarðanir. Nú virðist þetta vera orðið stjórnlaust og bara versna. Fjölmörg lið eru komin kominn með fjóra, fimm og allt upp í sjö erlenda leikmenn á skýrslu. Stórveldi með áratuga sögu og hefð tefla fram fimm erlendum atvinnumönnum. Meira að segja nágrannalið okkar af höfuðborgarsvæðinu er með 100% erlent byrjunarlið. Kostnaðurinn er orðinn stjórnlaus og stefnir í óefni. Eins virðist yngri flokka starfið líða fyrir þetta mikla útlendingaflóð hjá þeim félögum sem flesta útlendingana hafa. Betur er farið yfir það í samantekt um barna- og unglingastarfið.
Eins og áður hefur verið nefnt er stefna Stjörnunnar að taka ekki þátt í þessari pissukeppni sem mörg lið eru í en byggja upp lið sem samt sem áður getur verið samkeppnishæft.
Deildin þakkar starfsfólki Ásgarðs og öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu að starfi deildarinnar, leikmönnum, iðkendum, forráðamönnum og styrktaraðilum kærlega fyrir frábært samstarf og það er ljóst að framtíð körfuboltans í Garðabæ er björt.
Hilmar Júlíusson,
formaður körfuknattleiksdeildar
Meistaraflokkur kvenna starfar eftir stefnu Stjörnunnar um að efla líkams- og heilsurækt í keppnisíþróttum í Garðabæ og efla samkennd bæjarbúa með þátttöku í starfi félagsins. Meistaraflokksráð hefur undanfarin ár lagt megináherslu á að byggja upp lið með yngri leikmönnum sem uppaldir eru hjá Stjörnunni. Liðið leikur í 1. deild kvenna sem býður upp á heppilegan styrkleika á meðan liðið er að öðlast þroska og reynslu til að takast á við meira krefjandi verkefni í úrvaldsdeild.
Í upphafi yfirstandandi tímabils setti meistaraflokksráð sér markmið til næstu tveggja ára. Þau eru að ná fjárhagslegri sjálfbærni í rekstri flokksins, styrkja umgjörð þjálfunar með úrvals þjálfurum, fjölga iðkendum á unglingastigi og fjölga stuðningsfólki og sjálfboðaliðum í starfinu.
Auður Íris Ólafsdóttir hefur verið aðalþjálfari liðsins frá árinu 2021 og fyrir tímabilið 2022-23 var Arnar Guðjónsson ráðinn henni við hlið. Arnar er einn af reynslumestu körfuknattleiksþjálfurum landsins og er hann jafnframt aðalþjálfari karlaliðs Stjörnunnar. Samstarf þeirra hefur gengið mjög vel og liðið tekið miklum framförum undir leiðsögn þeirra.
Stjarnan teflir fram yngsta meistaraflokksliði landsins á yfirstandandi tímabili þar sem sjö af 15 leikmönnum eru 15 ára að aldri. Stefna flokksins var að komast upp úr 1. deild eftir 2-3 tímabil en það tókst strax í vetur þegar liðið vann deildina og komst í úrslit úrslitakeppninnar. Liðið komst jafnframt í fjögurra liða úrslit bikarkeppni KKÍ og skaut þar flestum af liðunum í úrvalsdeild ref fyrir rass.
MEISTARAFLOKKUR KVENNA
Meistaraflokksráð nýtti sér samfélagsmiðla í vaxandi mæli til að auglýsa starfsemi flokksins og vekja áhuga á körfubolta. Auglýsingar og ljósmyndir voru birtar á Instagram og Facebook sem hlutu góðar viðtökur hjá áhorfendum og yngri iðkendum. Allir heimaleikir flokksins voru sendir út á YouTube-rás Stjörnunnar og yngstu iðkendum var reglulega boðið að leiða meistaraflokk inn á í upphafi leikja sem reyndist vinsælt meðal bæði foreldra og barna. Áhorfendum fjölgaði mikið á leikjum. Samkvæmt tölum frá KKÍ voru þeir að jafnaði flestir á heimaleikjum liðsins meðal allra meistaraflokka kvenna hjá sambandinu og fjöldinn sambærilegur við mörg af öflugri karlaliðum.
Meistaraflokksins bíður mjög spennandi verkefni á næsta tímabili þegar hann hefur keppni í úrvalsdeild. Meistaraflokksráð mun áfram leggja áherslu á að í kjarna liðsins séu uppaldir leikmenn. Næstu ár munu áfram verða þroskaferli fyrir hinar ungu stúlkur Stjörnunnar á meðan þær læra að fóta sig í deild þeirra bestu. Unnið verður áfram að uppbyggingu unglingastarfs til þess að fjölga tækifærum stúlkna á menntaskólaaldri til að eflast í körfubolta og enn fremur til að fjölga í hópi sjálfboðaliða sem starfa í fjölbreyttum hlutverkum í kringum starf meistaraflokksins.
Stærsta áskorunin í starfsemi meistaraflokksráðs er skortur á aðstöðu sem orðinn er verulega hamlandi eftir mikla fjölgun iðkenda í barna- og unglingastarfi körfuknattleiksdeildar undanfarin ár. Í sumar stendur til að gera endurbætur á bláa salnum í Ásgarði og munu þær breytingar verða mikið framfaraskref fyrir alla körfuboltaiðkun Stjörnunnar.
Björgvin Skúli Sigurðsson,
formaður meistaraflokksráðs kvenna
Barna- og unglingastarf
Iðkendum í körfunni heldur, ótrúlegt en satt, áfram að fjölga. Eftir að hafa farið yfir 500 krakka árið 2021 fjölgaði enn í starfinu og hefur tekist sérlega vel við að fjölga yngstu iðkendum, sérstaklega stúlkum. Líkt og síðustu ár er Stjarnan langfjölmennasta körfuboltafélag landsins.
Frábær árangur
Líkt og síðustu ár hefur fjölguninni fylgt frábær árangur innan vallar. Félagið hefur landað langflestum bikar- og Íslandsmeistaratitlum yngri flokka undanfarin ár og er iðulega með stærstu hópana í minni bolta mótum og flest lið í Íslandsmótum. Fyrst um sinn var það einungis sagan drengjamegin en allra síðustu ár hefur Stjarnan verið með flesta iðkendur og titla, bæði stelpna og stráka. Stjarnan hefur auk þess átt flesta iðkendur í landsliðshópum KKÍ og hefur þeim farið stöðugt fjölgandi síðustu ár.
Við höfum notið þeirrar gæfu að sjálfboðaliðar í starfinu eru margir og þeim fer stöðugt fjölgandi. Við eigum svo gott bakland í vöskum foreldrahópum en mestu hefur skipt sá frábæri hópur þjálfara sem við höfum haft með okkur í liði undanfarin ár. Þar hefur yfirþjálfarinn Hlynur Bæringsson farið fremstur í flokki með metnaði og fyrirmyndaryfirsýn þess mikla starfs sem er unnið.
Fjölgun stúlkna
Sérstakt áherslumál undanfarin ár hefur verið að fjölga stúlkum í iðkendahópum Stjörnunnar og gera umgjörð stúlknastarfsins okkar sem besta. Það hefur gengið vel. Nýjasti sigurinn þar er að fá okkar frábæra þjálfara Árna Ragnarsson aftur í starfið. Nú sinnir hann fyrsta og öðrum bekk stúlkna. Þar hefur Árni á skömmum tíma byggt upp stóran og glæsilegan hóp ungra körfuboltastúlkna sem við vonumst svo sannarlega til að eflist og dafni áfram í starfinu hjá okkur. Sömuleiðis hefur Elías Orri gert frábæra hluti með tvo leikskólahópa þar sem um 50 krakkar á leikskólaaldri fá að kynnast íþróttinni fögru alla sunnudagsmorgna. Það er gríðarlega mikils virði að hafa Árna, Elías og okkar stóra hóp fagfólks í starfinu því án þeirra væri árangur ekki mögulegur.
Aðstöðumál krefjandi en styttist í endurbættan bláa sal
Nú er svo komið að aðstaða deildarinnar í bláa salnum og aðalsalnum í Ásgarði er komin að þolmörkum þess að geta veitt iðkendum okkar þá þjónustu sem við viljum veita. Það er því gleðilegt að skipt hefur verið um aðalkörfur í bláa salnum og parket kemur á salinn í sumar. Það mun muna miklu og verður hægt að leika flesta keppnisleiki yngri flokka sem þurfa heilan völl í bláa salnum frá og með næsta tímabilI.
Deildin hefur lengi talað fyrir því að lengja afgreiðslutíma Ásgarðs um helgar svo hægt sé að fjölga æfingum og leikjum í elstu unglingaflokkunum á þeim tíma. Til lengri tíma litið horfum við til þess að hefja æfingar í nýju íþróttahúsi í Urriðaholti og ef litið er enn lengra fram í tímann má vonast eftir nýju keppnishúsi Stjörnunnar í Vetrarmýri við hlið Miðgarðs. Hvort tveggja myndi skipta starfið miklu og óhætt er að segja að fjölgun iðkenda kallar enn frekar eftir þeim úrræðum.
Ljóst er að körfuboltastarfið í Stjörnunni hefur eflst það mikið að aðstöðumál eru krefjandi en þeim lúxusvanda tökum við fagnandi og eigum í góðu samtali við Garðabæ um þá kosti sem í stöðunni eru. Við erum þakklát fyrir gott bakland bæjarins og erum sannfærð um að hér eftir sem hingað til verði samstarfið gott.
Björt framtíð
Síðustu ár höfum við getað verið mjög stolt af starfinu okkar. Nú erum við með ungan meistaraflokk kvenna á leið í efstu deild. Það lið byggist á grunni margverðlaunaðra Íslandsmeistara og landsliðsstelpna sem við væntum mikils af. Við vinnum nú ötullega að því að okkar efnilegu drengir fá í auknum mæli hlutverk í meistaraflokksliði karla samfara öflugu starfi yngri flokkanna. Í vetur hafa nokkrir efnilegir drengir verið hluti meistaraflokks og ljóst að fleiri bíða þar við dyrnar.
Körfuboltastarf Stjörnunnar á bjarta framtíð. Það eru vissulega áskoranir og hlutirnir ganga ekki alltaf upp en í góðum og stórum hópi þeirra sjálfsboðaliða leggjast þó öll á eitt með það að markmiði að öflugasta körfuboltadeild landsins verði það áfram um ókomna tíð.
Skíni Stjarnan!
Björgvin Ingi Ólafsson,
formaður barna- og unglingaráðs kkd. Stjörnunnar
SKÝRSLA LYFTINGADEILDAR
Árið 2022 var ellefta starfsár lyftingadeildar Stjörnunnar. Árið var tímamótaár þar sem aðstaða félagsins batnaði til muna og reglubundnar opnar æfingar í kraftlyftingum með þjálfara hófust loksins. Snemma árs voru sérstakar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs „drepsóttar“ að líða undir lok og var keppnisstarf ekki alveg komið í fullan gang þá hjá sérsamböndunum en rúllaði þó örugglega af stað síðla vors.
Helsti áfangi ársins var að við tókum í notkun nýjan og glæsilegan lyftingasal í Miðgarði sem lyftingadeildin hefur afnot af. Salurinn var opnaður í apríl og meðlimum fjölgaði strax verulega. Í nýja salnum hefur deildin nú fjölbreyttari tæki og æfingaaðstöðu á heimsmælikvarða. Uppsetning salarins og tækjakostur var skipulagður af Alexander Inga Olsen með góðri aðstoð stjórnarinnar, Garðabæjar og fulltrúa annarra deilda Stjörnunnar. Alexander vann mikið þrekvirki í að setja upp salinn og eyddi miklum tíma í uppsetningu og verkstjórn. Við færum honum okkar bestu þakkir.
Í september réð deildin Hjálmar Andrésson sem kraftlyftingaþjálfara deildarinnar en Hjálmar er með fasta tíma þrisvar í viku sem eru opnir öllum iðkendum. Hjálmar er þaulreyndur í kraftlyftingum, bæði í þjálfun og keppnisstarfi, og þá er hann einnig menntaður sjúkraþjálfari. Hann sér líka um að kenna byrjendum í deildinni tækni en þeir eru nú skyldugir til að ljúka byrjendanámskeiði hjá honum. Við létum þó ekki þar við standa og réðum í lok desember Arnór Gauta Haraldsson sem þjálfara í ólympískum lyftingum. Hann er fyrsti þjálfari deildarinnar í ólympískum lyftingum og bæði þaulreyndur keppandi og þjálfari. Arnór er jafnframt líkt og Hjálmar sjúkraþjálfari að mennt. Arnór verður með tvo opna tíma í viku. Stjórn deildarinnar álítur að þarna sé til mikils að vinna en ólympískar lyftingar hafa verið mikið inni á líkamsræktarstöðvum með annarri starfssemi og því kjörið tækifæri að ná þessu fólki til okkar. Þar mun það geta æft í frábærri aðstöðu með faglegri handleiðslu.
Keppnisstarf ársins
Deildin sendi keppanda í kraftlyftingum á Reykjavík International Games sem er alþjóðlegt boðsmót. Aron Friðrik formaður deildarinnar keppti þar og setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju. Hann keppti einnig fyrir hönd Íslands á EM í klassískum kraftlyftingum sem fór fram í desember í Skierniewice í Póllandi. Aron var einn af fimm sem tilnefndir voru sem íþróttamaður Garðabæjar.
Hinrik Pálsson iðkandi og stjórnarmaður deildarinnar keppti fyrir hönd Íslands á EM öldunga í Vilníus í Litáen. Hinrik gerði sér lítið fyrir og tók öll Íslandsmetin í öldungaflokki I (40-49 ára) -105 kg sem er ekki slæmur árangur á hans síðasta ári í þessum aldursflokki. Þá hlaut Hinrik bronsverðlaun í bekkpressu á sama móti. Hann tók einnig þátt á Íslandsmótinu í klassískri bekkpressu og varð þar Íslandsmeistari í öldungaflokki I, –105 kg. Loks varð Hinrik Íslandsmeistari í öldungaflokki I, -105 kg flokki í klassískum kraftlyftingum.
Páll Bragason faðir Hinriks mætti einnig á ÍM í klassískri bekkpressu og tók titil þar í öldungaflokki IV (70+ ár) en Páll varð 74 ára á árinu. Páll varð Íslandsmeistari í öldungaflokki IV, –93 kg flokki.
Helgi Guðvarðarson keppti fyrir okkar hönd á ÍM í klassískum kraftlyftingum og lauk mótinu með glæsilegu Íslandsmeti í hnébeygju í öldungaflokki I (40-49 ára) -120 kg. Hann keppti svo á Íslandsmóti öldunga og unglinga og vann þar -120 kg flokkinn í öldungaflokki I.
Jón Sævar Brynjólfsson varð Íslandsmeistari í klassískri bekkpressu.
Meðlimir deildarinnar hafa einnig verið virkir í störfum beggja sérsambandanna (LSÍ og KRAFT), m.a. með stjórnarsetu, í nefndarstörfum, dómgæslu, þjálfun, fararstjórn í landsliðsverkefnum o.fl.
Árið 2022 var eitt af bestu árum lyftingadeildar Stjörnunnar. Nýr lyftingasalur, mikil fjölgun iðkenda og öflug þróun á starfinu, markmið sem við höfum lengi unnið að. Við sjáum fyrir okkur stöðugan vöxt og blað brotið í íslenskri lyftinga- og kraftlyftingamenningu. Framtíðin er björt og ekkert annað í boði en að halda áfram að settu markmiði.
Stjörnukveðja,
Aron Friðrik Georgsson
Guðmundur Smári Þorvaldsson
Alexander Ingi Olsen
Hinrik Pálsson
Jón Sævar Brynjólfsson
SKÝRSLA SUNDDEILDAR
Þjálfarar
Hannes Már Sigurðsson er yfirþjálfari sunddeildar og sér um daglegan rekstur deildarinnar ásamt stjórn. Hannes og Kristján Albert Kristinsson sáu um þjálfun A-hóps. Kristján Albert sá um þjálfun B-hóps ásamt Rakel Ýri Ottósdóttur sem einnig sá um allt sumarstarf sunddeildar. Þá voru Rakel Ýr Ottósdóttir, Sigþór Örn Rúnarsson og Júlía Líf Gunnsteinsdóttir með C-, D-, E- og barnahópa. Aðstoðarþjálfarar voru Ágústa Inga Arnarsdóttir, Katrín Tinna Andrésdóttir og Björgvin Margeir Hauksson.
Iðkendur
Iðkendur hjá deildinni árið 2022 bæði sem sóttu námskeið tímabundið, sumarnámskeið og barnanámskeið og þau börn sem æfðu sund voru í kringum 400. Að staðaldri iðkuðu 100 sund allt árið sem er fækkun frá síðasta ári. Kynjahlutfallið er jafnt.
Æfingar
Æfingahópar voru níu talsins: A-hópur fyrir 13 ára og eldri , B-hópur fyrir 11-15 ára, C-hópur fyrir 8-11 ára, þrír D-hópar fyrir 7-9 og 6-8 ára og þrír E-hópar fyrir byrjendur, 4-7 ára. A-hópur æfir 11 sinnum í viku, bæði þrekæfingar og sundæfingar, B-hópur æfir fjórum sinnum í viku og aðrir hópar 2-3 sinnum.
Markmið
Yngri börn: Að börnin læri undirstöðutækni í sundi. Lögð er áhersla á að börnin hafi gaman af sundi, verði örugg í vatninu og líði vel. Einnig er áhersla á að byggja upp samkennd og liðsheild. Að börnin geti hlustað og farið eftir fyrirmælum og sýnt starfsfólki og félögum virðingu og kurteisi.
Eldri börn: Að börnin fái fjölbreytta þjálfun í keppnisgreinum sundsins. Þau fái að spreyta sig í keppni á löggiltum sundmótum með jafnöldrum úr öðrum félögum. Að þau fari sem hópur í æfinga- og keppnisferðir innan- og utanlands sem þroskar þau og eflir.
Námskeið: Að bjóða upp á alhliða líkamsrækt í gegnum sundæfingar og sundleikfimi auk þess að efla sundiðkun almennings. Þá er boðið upp á ungbarnasund fyrir þau allra yngstu.
Námskeið
Haldin eru reglulega námskeið fyrir þriggja til sex ára börn í fylgd með foreldrum. Námskeiðin hafa gengið mjög vel og eru orðin fastur liður í starfi sunddeildarinnar. Einnig er boðið upp á ungbarnasund, vatnsleikfimi og leikfimi fyrir barnshafandi konur í Sjálandi.
Sunddeildin hefur frá stofnun staðið fyrir sumarsundnámskeiðum í Ásgarði og á Álftanesi. Áhersla hefur verið lögð á námskeið fyrir börn á aldrinum þriggja til ellefu ára. Síðastliðin fimm ár höfum við sótt börn af þeim leikskólum sem eru í göngufæri við Ásgarð og Álftaneslaug. Það hefur gefið góða raun og munum við halda þessu áfram. Sundþjálfararnir Rakel, Júlía, Katrín Tinna og Ágústa Inga sáu um sumarnámskeiðin auk sundmanna úr unglingastarfinu okkar.
Starfið árið 2022
Árið 2022 var okkur gjöfult. Þorsteinn Karl Arnarsson vann til bronsverðlauna í 400m skriði og varð 4. í bæði 200 m skriði og 800 m skriði sem hann þurfti að synda í sama úrslitahluta. Þetta er í fyrsta sinn í fjölmörg ár sem sundmaður frá Stjörnunni vinnur til verðlauna í fullorðinsflokki á Íslandsmeistaramóti í sundi. Einnig náðu bæði karla- og kvennalið UMSK (Stjarnan og Afturelding) að vinna sér inn sæti í 1. deild í sundi fyrir árið 2023 á bikarmótinu í sundi. Farið var á fjölmörg mót með krakkana árið 2022 og gekk mjög vel vel.
Aðstaðan
Helsu breytingar hjá okkur í starfinu 2022 voru að síðastliðið haust fengum við að æfa með ÍA og Aftureldingu í aðstöðu SH á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þetta gjörbreytir æfingum hjá okkar fólki sem æfir í Ásgarði. Í upphafi árs þurftum við að fella niður þó nokkrar æfingar þar sem einfaldlega var of kalt til að synda erfiða æfingu úti. Æfingar féllu niður á haustönn eingöngu þegar vatn var skammtað á höfuðborgarsvæðinu og ekki tókst að halda hita á lauginni. Annars hafa æfingar gengið vonum framar þetta árið með tilliti til veðurs.
Boðið var upp á æfingar og námskeið í öllum sundlaugum Garðabæjar: Ásgarði, Álftanesi , Mýrinni og Sjálandsskóla. Sundæfingar hjá yngri aldurshópum eru eingöngu í innilaugunum.
Fjármálin
Staða sunddeildar er sterk. Sunddeildin hefur lagt áherslu á að halda fjármálum deildarinnar í jafnvægi. Það hafðist árið 2022 eins og 2021.
Framtíðin
Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu sundmannvirkja til að hægt verði að mæta þörfum ólíkra hópa og stækkandi bæjarfélagi til framtíðar. Það er enn ósk okkar að einhvern daginn eigum við 25m/50m innisundlaug sambærilega þeim sem nágrannabæjarfélög okkar eiga.
Eins og í öllu félagsstarfi er stuðningur sjálfboðaliða ómetanlegur. Starfið væri lítið sem ekkert ef ekki væri fyrir sjálfboðaliða.
Fyrst og fremst vonum við að við höldum áfram að byggja upp jákvæða og heilbrigða einstaklinga sem Stjarnan getur verið stolt af.
Að lokum þakkar stjórn sunddeildarinnar öllum þeim sem komu að starfinu með einum eða öðrum hætti og starfsfólk mannvirkjanna á heiður skilið fyrir þolinmæði í garð iðkenda.
Skíni Stjarnan!
F.h. sunddeildar Stjörnunnar,
Sigrún Þorsteinsdóttir,
formaður
STJÖRNUKONUR
Hugmyndin að góðgerðafélaginu Stjörnukonur kviknaði þegar ég kynnti mér það frábæra starf sem KR-konur hafa unnið allt frá árinu 1973. Í því félagi eru um 200 konur sem vinna ötullega fyrir barna- og unglingastarf KR. Mér fannst því mjög spennandi að kynna hugmyndina fyrir konum í Garðabæ og hrinda hugmynd minni í framkvæmd.
Ég fékk nokkrar öflugar konur á undirbúningsfund í júní 2019 og reyndi að hafa hópinn með eins mikinn þverskurð úr starfi Stjörnunnar og hægt var. Þann 5. september 2019 voru Stjörnukonur formlega stofnaðar. Með tilkomu Stjörnukvenna er frekari vettvangur fyrir þær konur að sameina krafta sína í sameinuðum hópi. Okkur í stofnhópnum þótti mikilvægt að sjónarmið flestra deilda Stjörnunnar og hagsmunir gætu notið sín. Frá stofnun Stjörnukvenna þar sem 120 konur gengu í félagið hafa færri viðburðir en okkur hugnaðist orðið á vegum félagsins. Covid átti sinn þátt í því en það sem hefur náðst þó að halda í heiðri eru viðburðir í fjaröflunarskyni eins og Jóla Pop-up Stjörnukvenna ásamt fræðslukvöldi, göngu um Garðabæ svo dæmi séu tekin. Einnig sjá Stjörnukonur um sölu á Stjörnuteppum og rennur ágóði þeirra beint í sjóð Stjörnukvenna.
Tilgangur Stjörnukvenna er margþættur. Meginmarkmiðið er að styrkja og efla barna- og unglingastarf, sinna fræðslu- og uppbyggingarstarfi og vera góðgerðafélag sem styrkir góð og verðug málefni. Hugmyndin er að fá til okkar fyrirlesara og vera með fjölbreytta fræðslu sem hentar iðkendum Stjörnunnar og aðstandendum. Stjörnukonur hafa t.a.m. veitt peningastyrki til iðkenda sem hafa þurft aðstoð vegna ferða utan, peningastyrki til Stjörnufjölskyldna sem hafa verið að glíma við alvarleg veikindi. Þetta er hluti af því góðgerðastarfi sem félagsskapurinn vill halda í heiðri.
Nú í maí er fyrirhugað að halda í skemmtilega kvöldgöngu þar sem fræðsla á skúmaskotum bæjarins verður í fyrirrúmi og enda í Stjörnuheimilinu í smá gleðskap. Við vonumst til góðrar mætingar líkt og í upphafi enda fjöldinn allur af konum í bæjarfélaginu sem vill láta gott af sér leiða. Öllum hugmyndum verður tekið fagnandi og langar okkur að standa vel að starfinu svo það eigi blómlega framtíð. Öllum konum sem hafa sterk tengsl til Stjörnunnar er því boðið að slást í hópinn með okkur.
Hægt er að fylgjast með okkur á Facebook og Instagram undir Stjörnukonur. Eins er hægt að senda okkur fyrirspurnir á stjornukonur@stjarnan.is
F.h. Stjörnukvenna,
Harpa Rós Gísladóttir